Innlent

Óbreytt skilaboð Viðskiptaráðs

Freyr Bjarnason skrifar
Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Í tilkynningu frá ráðinu segist það standa við fyrri skilaboð sín.
Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Í tilkynningu frá ráðinu segist það standa við fyrri skilaboð sín. Fréttablaðið/Valli
Skilaboð Viðskiptaráðs um að fjölgun starfa hjá hinu opinbera hafi verið verulega umfram fjölgun starfa á almennum vinnumarkaði standa óhögguð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðinu. Tilefnið er tilkynning BSRB sem birtist í Fréttablaðinu.

„Stærsta misræmið í tölum Viðskiptaráðs og BSRB má finna í fjölda ríkisstarfsmanna um síðustu aldamót. Í tölum BSRB er fullyrt að stöðugildi hjá ríkinu hafi verið 15.700 árið 2000 og vísað er til upplýsinga frá fjármálaráðuneytinu án þess að beinnar heimildar sé getið,“ segir Viðskiptaráð. „Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi 19. nóvember 2009 kemur fram að fjöldi stöðugilda hjá ríkinu hafi verið 14.000 árið 2000. Viðskiptaráð notaðist við hinar opinberu tölur, en ekki kemur fram í tilkynningu BSRB hvers vegna litið var fram hjá þeim.“

BSRB sagði í sinni tilkynningu að störfum hjá ríkinu hefði fækkað um 10,6 prósent frá 2008 og vildi meina að fullyrðingar Viðskiptaráðs um þriggja prósenta fækkun ríkisstarfsmanna væru rangar. Viðskiptaráð segir að stór málaflokkur, málefni fatlaðra, hafi verið fluttur frá ríkinu yfir til sveitarfélaga 2011 og þá hafi færst 905 stöðugildi á milli. „Ef bera á saman tölur fyrir og eftir þessa tilfærslu ber að leiðrétta fyrir henni. Sé það gert hverfur um helmingur þeirrar fækkunar stöðugilda sem BSRB fullyrðir að átt sér hafi stað hjá ríkinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×