Innlent

Tvöföldun Vesturlandsvegar aðkallandi

Svavar Hávarðsson skrifar
Regína Ásvaldsdóttir.
Regína Ásvaldsdóttir.
Ráðast þarf strax í úrbætur í vegamálum á Vesturlandi og ekki síst tvöföldun Vesturlandsvegar. Umferðarþungi kallar á úrbætur, ekki síst vegna öryggis vegfarenda.

Þetta er skoðun Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra á Akranesi, sem vísar í þingsályktun um samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022 máli sínu til stuðnings. Samkvæmt ályktuninni, sem var samþykkt í júní 2012, er gert ráð fyrir að ekki verði hafist handa við framkvæmdir á kaflanum Þingvallavegur–Kollafjörður fyrr en á þriðja tímabili áætlunarinnar (2019–2022). Áætlaður kostnaður er 2,5 milljarðar króna. Framkvæmdir við kaflann Kollafjörður–Hvalfjarðarvegur eiga að hefjast á sama tímabili. Kostnaðurinn er metinn 3,1 milljarður, þó aðeins 500 milljónir hafi verið eyrnamerktar framkvæmdum þar.

„Við teljum, í ljósi þess að það fara 6.000 bílar um þennan veg á dag [Þingvallavegur–Hvalfjarðargöng], að það þurfi að ráðast sem fyrst í úrbætur. Það vinna til dæmis hundruð Akurnesinga í Reykjavík og keyra daglega á milli. Til samanburðar þá fara rúmlega 7.000 bílar um Suðurlandsveg daglega, sem hefur fengið talsverðar endurbætur á undanförnum árum, sem og Reykjanesbrautin, enda var það löngu orðið tímabært. Nú er hins vegar komin röðin að okkur. Það er oft vindasamt á Kjalarnesinu og undir Hafnarfjallinu og lýsingin er mjög léleg þannig að þarna þarf klárlega að bæta öryggi,“ segir Regína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×