Innlent

Áform um einkarekinn grunnskóla í Hafnarfirði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Kristján Ómar Björnsson er forsvarsmaður væntanlegs einkarekins grunnskóla í Hafnarfirði.
Kristján Ómar Björnsson er forsvarsmaður væntanlegs einkarekins grunnskóla í Hafnarfirði. Fréttablaðið/Valli
„Við sjáum þetta sem valkost fyrir krakka sem vilja hafa heilbrigt líferni og upplýsingatækni í forgrunni í sínu námi,“ segir Kristján Ómar Björnsson, forsvarsmaður hóps manna sem kallast Framsýn og hyggjast koma á fót einkareknum grunnskóla fyrir 8. til 10. bekk í Vallahverfi í Hafnarfirði.

Meðal þeirra sem eru með Kristjáni í hópnum eru Ágúst Sindri Karlsson, lögmaður og stofnandi MP-banka, Sigríður Kristjánsdóttir, Gísli Guðmundsson kennari og Hildur Loftsdóttir kennari. Þá hefur Karl Þorsteinsson hjá ARM Verðbréfum hf. veitt ráðgjöf varðandi fjármögnun og rekstur.

„Þetta er hugmynd sem ég og samstarfsfélagar mínir höfum gengið með í maganum í nokkurn tíma. Við reyndum að ýta þessu úr vör fyrir um fjórum árum en þá kom upp mjög neikvæð umræða um einkarekið skólastarf svo við ákváðum að setja þessa góðu hugmynd á ís og draga hana fram þegar betur viðraði,“ segir Kristján.

Nýi skólinn mun byggja á svokölluðu vendinámi þar sem nemendur tileinka sér námsefnið á eigin spýtur en nýta tímann með kennara til að leysa vanda sem kemur upp í náminu. Þannig segir Kristján að námið geti orðið mun einstaklingsmiðaðra en ella.

„Keilir á Ásbrú hefur verið brautryðjandi í þessu kennslufyrirkomulagi og reynsla mín þaðan sem kennari mun nýtast vel í starfinu í Hafnafirði,“ segir Kristján.

Ósk hópsins um viðræður við Hafnarfjarðarbæ var lögð fram í fræðsluráði bæjarins í gær. Óskað er eftir því að bærinn samþykki framlög til skólans í samræmi við grunnskólalög. Samkvæmt því myndi bærinn greiða 75 prósent kostnaðar við hvern nemanda miðað við reiknaðan meðaltalskostnað yfir landið. Afgangurinn af rekstrarkostnaðinum á að nást inn með skólagjöldum eins og tíðkast með flesta einkarekna skóla.

Að sögn Kristjáns hefur Framsýn augastað á ákveðnu húsnæði. Hann segir nýja skólann geta tekið til starfa þegar haustið 2015.

„Fyrsta skrefið er að fá vilyrði frá sveitarfélaginu,“ útskýrir Kristján sem kveðst bjartsýnn á að skólinn verði að veruleika. „Við erum búnir að eiga einn formlegan fund með fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar sem gekk mjög vel. Ég skynja að umræðan er talsvert jákvæðari í dag í garð einkarekins skólastarfs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×