Erlent

36 fjallgöngumenn hafi farist á Ontake

Freyr Bjarnason skrifar
Björgunarmenn á leiðinni á tind Ontake en fjallið er rúmlega 3.000 metra hátt.
Björgunarmenn á leiðinni á tind Ontake en fjallið er rúmlega 3.000 metra hátt. Fréttablaðið/AP
Fimm lík til viðbótar fundust skammt frá tindi japanska eldfjallsins Ontake í gær. Þar með er talið að 36 manns hafi farist eftir að fjallið gaus á laugardaginn.

Fjallið hefur spúð eiturgufum og ösku frá því gosið hófst og vegna þess þurftu björgunarstarfsmenn að hætta við leiðangur á toppinn í gær í leit að fleiri fórnarlömbum.

Átta lík voru flutt af tindinum í gær áður en björgunaraðgerðunum lauk skömmu eftir hádegið. Fjögur lík fundust á sunnudaginn og samanlagt hefur því tekist að flytja tólf lík til byggða. Skammt frá tindinum eru 24 lík sem verða flutt um leið og aðstæður leyfa.

Ekki er ljóst hvernig fólkið dó en sérfræðingar telja að það hafi kafnað vegna öskufalls, lent undir eða fengið í sig steina, eða andað að sér eitruðum gastegundum. Líkin sem björgunarstarfsmenn fundu í gær fundust skammt frá líkneski á toppi eldfjallsins, á sama svæði og hin fórnarlömbin eru sögð hafa fundist.

Á myndum japanska sjónvarpsstöðvarinnar TBS mátti sjá hermenn bera líkpoka að herþyrlu sem hafði lent á tiltölulega opnu svæði við tindinn. Meira en tvö hundruð hermenn og slökkviliðsmenn tóku þátt í leiðangrinum.

Þetta er í fyrsta sinn á seinni tímum sem fólk deyr af völdum eldgoss í hinu 3.067 metra háa Ontake-fjalli, sem er vinsælt meðal fjallgöngumanna. Það er 210 kílómetra vestur af höfuðborginni Tókýó. Eldgos varð í fjallinu árið 1979 án þess að nokkur færist. Fjallgöngukona, sem komst heil á húfi niður af fjallinu, sagði við japönsku sjónvarpsstöðina Asahi að ösku og steinum hefði rignt niður af tindinum.

„Sumir grófust í ösku upp að hnjám og tveir fyrir framan mig virtust vera dánir,“ sagði hún. Önnur bætti við að einn hefði legið á jörðinni eftir að hafa fengið grjót í bakið, að því er kom fram á vef BBC. „Hann sagði: „Þetta er vont, þetta er vont,“ en eftir einn og hálfan tíma heyrðist ekki meira í honum.“

Japanska veðurstofan hefur spáð áframhaldandi eldgosi og varar við því að hraungrjót úr fjallinu gæti lent í allt að fjögurra kílómetra radíus frá tindinum.

freyr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×