Innlent

Lofar fjörugum aðalfundi DV

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Reynir Traustason, ristjóri, stjórnarmaður og einn eiganda DV, segist eingöngu víkja á eðlilegum forsendum.
Reynir Traustason, ristjóri, stjórnarmaður og einn eiganda DV, segist eingöngu víkja á eðlilegum forsendum. vísir/stefán
Í dag verður aðalfundur hlutafélags DV haldinn, þar sem meðal annars verður kosið í nýja stjórn félagsins. Með nýrri stjórn er hægt að ráða nýjan framkvæmdastjóra félagsins og þar með nýjan ritstjóra.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður DV, skrifaði leiðara fyrr í vikunni þar sem kom fram að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður og Þorsteinn Guðnason, fyrrverandi stjórnarformaður DV, reyni að ná meirihluta í hlutahópi DV og telur blaðamaður forsendur fyrir yfirtöku ekki faglegar heldur snúist þær um valda- og áhrifakaup.

„Já, ég get lofað þér að það verður fjörugt á fundinum,“ segir Reynir Traustason, ritstjóri DV, en Björn Leifsson, eigandi World Class og nýr hluthafi félagsins, hefur opinberlega lýst því yfir að hann vilji að „mannorðsmorðingjanum“ Reyni verði komið frá.

„Við ritstjórnin erum mjög samstíga að standa af okkur aðför Björns. Við dauðskömmumst okkar fyrir að hafa þennan mann í hluthafahópnum en við ætlum að mæta honum,“ segir Reynir sem segist vera þrælbrattur og alveg til í að víkja ef vilji er fyrir því en það verði að vera á eðlilegum forsendum.

„Fjölmiðlar eiga að fá sem mestan frið frá peningavaldinu en á endanum eru það náttúrulega peningarnir sem tala,“ segir Reynir og bætir við að ýmislegt geti komið á óvart á fundinum í dag.


Tengdar fréttir

Hafnar ritstjórastöðu hjá DV

Björn Þorláksson, ritstjóri AKV, segir í færslu sinni á Facebook að honum hafi verið boðin staða ritstjóra hjá DV. Þar segir hann jafnframt að hann hafi hafnað tilboðinu.

Blaðamenn DV harma orð Björns Leifssonar

Blaðamenn DV segja orð Björns benda til þess að hann sé gagngert að kaupa hlutabréf í DV til að stuðla að því að nýr ritstjóri verði ráðinn til blaðsins.

Reynir reiknar með að hætta á DV á föstudag

Reynir segir um nakta tilraun að ræða til þess að kaupa út tjáningarfrelsið. Með þessu sé Björn að kaupa sér þögn miðilsins, en honum hafi þótt umfjöllun DV um sig óþægileg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×