Erlent

Vígamenn ISIS hrundu árás stjórnarhersins

Brjánn Jónasson skrifar
Íraskir hermenn halda á lofti herteknum fána ISIS um 60 kílómetra norður af Bagdad. Fréttablaðið/AP
Íraskir hermenn halda á lofti herteknum fána ISIS um 60 kílómetra norður af Bagdad. Fréttablaðið/AP
Stjórnarherinn í Írak hélt í gær áfram stórsókn í átt að borginni Tíkrit sem hófst á laugardag. Hart var barist um borgina í gær, en í gærkvöldi voru vígamenn ISIS-hryðjuverkasamtakanna enn við stjórn í borginni.

ISIS tóku Tíkrit þann 11. júní, en borgin er fæðingarborg Saddams Hussein heitins, einræðisherra landsins. Íbúar borgarinnar eru flestir súnnítar, eins og vígamenn ISIS, og hafa verið óánægðir með stjórn Nuris al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, sem er sjíti.

Herþyrlur og skriðdrekar tóku þátt í sókn stjórnarhersins, en bandarískir ráðgjafar tóku þátt í að skipuleggja hana. Vígamenn ISIS hrundu árás stjórnarhersins á laugardag, en harðir bardagar stóðu yfir í allan dag í gær.

Qassim al-Moussawi, talsmaður hersins, sagði í gær að aðgerðirnar í Tíkrit hefðu verið skipulagðar í nokkrum skrefum, og að þær hefðu gengið samkvæmt áætlun.

„Öryggissveitirnar hafa náð á sitt vald að mestu þeim svæðum sem skilgreind voru í fyrsta stiginu, svo við höfum náð árangri,“ sagði al-Moussawi. „Nú er bara tímaspursmál hvenær við náum fullri stjórn á borginni.“

Bandarísk stjórnvöld hafa sent til Íraks 180 af þeim 300 hernaðarráðgjöfum sem tilkynnt hefur verið að eigi að senda til landsins. Þá hafa bandarískar herþotur og ómönnuð flugför verið notuð til að fylgjast með ferðum vígamanna ISIS á jörðu niðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×