Erlent

Innilokuð í íbúð sinni í sjö hundruð daga

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Zeinat Akhras ásamt bróður sínum Ayman Hún er enn ekki nema 38 kíló, þrátt fyrir að hafa bætt á sig fjórum eftir að umsátrinu lauk snemma í maí.
Zeinat Akhras ásamt bróður sínum Ayman Hún er enn ekki nema 38 kíló, þrátt fyrir að hafa bætt á sig fjórum eftir að umsátrinu lauk snemma í maí. fréttablaðið/AP
Í sjö hundruð daga, nærri tvö heil ár, var 65 ára kona lokuð inni í íbúð sinni í Homs. Hún komst hvergi vegna linnulausra átaka milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna.

Zeinat Akhras heitir hún og starfaði sem lyfsali. Hún fékk loksins frelsið í byrjun maí eftir að umsátri stjórnarhersins lauk með sigri á uppreisnarmönnum.

Hún fór afar sjaldan út fyrir hússins dyr, líklega sex sinnum þessa sjö hundruð daga, segir hún.

„Ég kom til baka afar döpur eftir að hafa séð alla eyðilegginguna. Þetta hverfi var alltaf fullt af lífi,“ segir hún.

Þegar á leið segist hún hafa forðast að líta í spegil, af ótta við að hún myndi láta bugast ef hún sæi hvaða áhrif einangrunin hafði haft. Hún var 34 kíló þegar umsátrinu lauk og ber þess enn merki.

Tveir bræður hennar höfðust einnig við í íbúðinni, en þeir hættu sér út til að líta eftir fyrirtækjum sínum og gæta kirkjunnar Mar Elia, sem er í nágrenninu. Prestur kirkjunnar hafði beðið systkinin, sem eru kristinnar trúar, um að gæta eigna kirkjunnar.

Framan af var umsátrið þolanlegt vegna þess að systkinin höfðu safnað matvælum og nauðsynjum. Þau áttu góðar birgðir af hrísgrjónum, baunum, hveiti og eldsneyti. Fáir íbúar borgarinnar, aðrir en þeir uppreisnarmenn sem tóku þátt í átökunum, héldu út til enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×