Erlent

Úkraínustjórn sakar forvera sína um stórfelld fjársvik

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ihor Bilús, aðstoðarskattaráðherra Úkraínu.
Ihor Bilús, aðstoðarskattaráðherra Úkraínu. Vísir/AP
Ihor Bilús, aðstoðarskattaráðherra Úkraínu, segir að forveri sinn í embætti hafi tekið þátt í að skipuleggja stórfelld fjársvik, sem gengu út á það að búið var til flókið net fjölmargra gervifyrirtækja sem notað var til að fela slóð peninga sem ráðamenn og embættismenn fengu í vasann.

Sérstakt leyniherbergi hafði verið útbúið í ráðuneytinu, þar sem lögð voru á ráðin. Herbergið var útbúið með gegnsæu borði og gegnsæjum stólum sem áttu að tryggja að ekki væri hægt að hlera það sem þar fór fram án þess að viðstaddir tækju eftir því.

Oleksandr Klymenko, forveri Bílús í embætti, neitar þessum ásökunum og segist alltaf hafa barist gegn spillingu.

Bilús hefur hins vegar dregið fram skjöl sem virðast styðja málflutning hans: „Í meginatriðum var það svoleiðis að hvar svo sem borið er niður þá var spilling við lýði í Úkraínu,“ hefur AP-fréttastofan eftir Önnu Derevjankó, framkvæmdastjóra Evrópska viðskiptasambandsins í Úkraínu. Hún segir mjög erfitt að vera ósammála ásökunum ráðherrans.

Klymenko er, rétt eins og forsetinn fyrrverandi, Viktor Janúkóvitsj, flúinn úr landi.

Þegar nýir ráðamenn tóku við völdum fyrr á þessu ári fóru þeir að rannsaka starfshætti fyrri stjórnar og segjast fljótlega hafa rekist á ýmislegt gruggugt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×