Erlent

Almenningur forðar sér frá Mosul

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Íbúar borgarinnar hafa margir hverjir haft sig á brott eftir atburði gærdagsins.
Íbúar borgarinnar hafa margir hverjir haft sig á brott eftir atburði gærdagsins. Vísir/AP
Núrí al Maliki, forsætisráðherra Íraks, lagði hart að þjóðþingi landsins að lýsa yfir neyðarástandi, sem gæfi honum aukin völd til að bregðast við innrás herskárra múslima í borgina Mosul.

Uppreisnarmennirnir hafa náð þessari næst stærstu borg landsins að mestu á sitt vald. Þeir lögðu undir sig höfuðstöðvar héraðsstjórans í Niniveh, en Mosul er höfuðborg þessa héraðs í norðurhluta Íraks.

Þeir hafa farið um borgina, vopnaðir byssum og veifandi svörtum fánum, og hröktu bæði hermenn og lögregluþjóna á brott. Margir íbúar borgarinnar forðuðu sér einnig hið snarasta.

Íbúarnir sögðu innrásarmennina vera liðsmenn samtakanna Íslamskt ríki í Írak og Austurlöndum nær, en þau samtök náðu fyrr á árinu á sitt vald annarri borg, Fallujah, sem er í suðvesturhluta landsins. Stjórnarhernum hefur enn ekki tekist að ná þeirri borg úr höndum þeirra.

„Ástandið í borginni er algjör ringulreið og enginn hjálpar okkur,“ segir Umm Kamm, ríkisstarfsmaður í Mosul sem býr skammt frá höfuðstöðvum héraðsstjórans. Hún flúði borgina ásamt fjölskyldu sinni í gærmorgun: „Við erum hrædd. Það er engin lögregla eða her í Mosul.“

Árangur uppreisnarmanna er verulegt áfall fyrir stjórn al Malikis. Hann er nú í óða önn að reyna að mynda nýja stjórn eftir að hafa unnið sigur í þingkosningum í síðasta mánuði.

Sjálfur er Al Maliki sjía-múslimi og hefur einkum reitt sig á stuðning sjía-múslima á þingi, en súnní-múslimar og kúrdar hafa sakað hann um að einoka völdin.

Sjálfstjórnarsvæði kúrda nær að hluta til inn í Niniveh-hérað, og hafa leiðtogar kúrda harðlega gagnrýnt stjórn al Malikis fyrir að hafa ekki viljað starfa með kúrdum að því að verja Mosul. Það hefði getað komið í veg fyrir innrásina.

Samtökin hafa haft tengsl við Al Kaída og hafa tekið virkan þátt í átökum gegn stjórn Bashar al Assads forseta í nágrannalandinu Sýrlandi. Liðsmenn þeirra hafa staðið að mörgum verstu grimmdarverkum stríðsins og fengu fljótlega aðra uppreisnarmenn í Sýrlandi upp á móti sér.

Leiðtogi samtakanna heitir Abu Bakr al Baghdadi einnig bakað sér óvild Al Kaída-samtakanna, sem vilja ekki lengur hafa þau innan sinna vébanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×