Innlent

Lítil kjörsókn „áhyggjuefni fyrir okkur öll“

Bjarki Ármannsson skrifar
Kjörsókn hefur ekki verið minni í Reykjavík frá árinu 1928.
Kjörsókn hefur ekki verið minni í Reykjavík frá árinu 1928. Vísir/Valli
Kjörsóknin í nýliðnum kosningum var með dræmasta móti víða um land. Í Reykjavík kusu einungis um 66 prósent atkvæðabærra manna og hefur kjörsókn ekki verið minni í Reykjavík frá árinu 1928. Formenn stærstu stjórnmálaflokkanna eru á einu máli um að bregðast þurfi við þessari þróun.

„Mér finnst þessi dræma kjörsókn áhyggjuefni fyrir okkur öll, óháð því fyrir hvaða flokk við stöndum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

„Við hljótum að leita skýringa hjá okkur sjálfum og annars staðar. Þetta er eitthvað sem allavega við í minni hreyfingu munum fara yfir, hvernig við getum komið okkar sjónarmiðum betur á framfæri og vakið áhuga fólks á stjórnmálum.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að tilgangslaust sé að stinga upp á mögulegum lausnum fyrr en ástæður að baki lítilli kjörsókn hafa verið kannaðar nánar.

„Ég held að það sé óþarfi að eyða mörgum orðum í hversu mikið áhyggjuefni það er,“ segir Árni Páll. „Það er bara aðalatriðið að það verði gerðar ítarlegar greiningar sem fyrst á því hvers vegna fólk sat heima. Hver sem er getur látið sér detta í hug einhverjar skýringar á því en við þurfum á rannsóknum á því að halda sem fyrst og leggjast síðan í átak til að bregðast við.“

Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar, nefnir sem möguleika svokallaðar sértækar viðhorfskannanir, þar sem fólk hlýtur fræðslu í ákveðnum málaflokkum áður en það greinir svo frá afstöðu sinni til þeirra, og rafræna atkvæðagreiðslu.

„Ef það er eitthvað sem við Íslendingar erum ágæt í, þá er það að laga okkur að svona tækninýjungum,“ segir Heiða Kristín. „Ég held að við værum góð „prótótípa“ í svona tilraun.“


Tengdar fréttir

„Netkosningar eru klárlega framtíðin"

Netkosningar eru valmöguleiki í kosningum í öðrum löndum og eru hugsuð til þess að sporna við dræmri kjörsókn. Íslenskt fyrirtæki hefur þróað hugbúnað sem gerir yfirvöldum kleift að bjóða kjósendum upp á að kjósa á netinu.

Lítil kjörsókn framan af degi

Kjörsókn er heldur dræmari framan af degi í bæði Reykjavík og Akureyri en hún var í síðustu sveitastjórnarkosningum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.