Innlent

„Netkosningar eru klárlega framtíðin"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Haraldur segir að hægt sé að bjóða upp á netkosningu hér á landi.
Haraldur segir að hægt sé að bjóða upp á netkosningu hér á landi.
Mikið hefur verið fjallað um dræma þátttöku í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru í gær. Þetta er ekki eingöngu vandamál hér á landi, víða annarsstaðar í heiminum fer kosningaþátttaka minnkandi. Til að sporna við þessu hafa sum lönd ákveðið að bjóða kjósendum upp á netkosningu, þar sem stuðst er við svokölluð rafræn skilríki. Þessi þjónusta skilar sér í aukinni kosningaþátttöku.

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur lýsti þessari minnkandi kosningaþátttöku sem „hamförum fyrir lýðræðið.“

Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, segir að ef horft sé á tæknilegu hlið málsins sé ekkert því til fyrirstöðu að bjóða upp á netkosningu hér á landi. Fyrirtækið Auðkenni hefur þróað rafræn skilríki sem gætu gert netkosningu örugga. Nú þegar eru í undirbúningi tilraunaverkefni með rafrænar íbúakosningar á Íslandi. Verkefnið er þó ekki hugsað fyrir kosningar til þings eða sveitastjórna heldur frekar fyrir verkefni eins og Betri Reykjavík eða þess háttar. Þjóðskrá stýrir verkefninu og notast við sama kerfi og Norðmenn notuðu í þingkosningunum í fyrra.

„Netkosningar eru klárlega framtíðin,“ segir Haraldur og heldur áfram: „Við erum með flesta þræði í infrastrúkturnum á netkosningu til staðar hér á landi. Nú þarf löggjafinn að bregðast við. Þetta hefur verið leyft víða, í Kanada, Noregi og Eistlandi og hefur skilað sér í bættri kjörsókn. Til langs tíma ættu þessar netkosningar líka að lækka kostnað við kosningar einnig tekur minni tími að telja atkvæðin í netkosningum, svo ég tiltaki fleiri kosti við þetta fyrirkomulag.“

Haraldur telur að netkosning eigi að vera valkostur samhliða hefðbundnum kosningum, allavega fyrst um sinn.

Gengur vel í Eistlandi

Netkosningar voru kynntar fyrir Eistum árið 2005 og hafa síðan þá verið valkostur við hliðina á hefðbundnum kosningum sjö sinnum. Boðið hefur verið upp á þetta sem valkost í kosningum til þingsins, sveitarstjórna og til Evrópuþings.

Árið 2005 þá kusu um 9 þúsund manns í gegnum netið, eða 2% þeirra sem nýttu atkvæðarétt sinn. Síðan þá hafa Eistar nýtt netið sjö sinnum í kosningum og hefur fjöldi þeirra sem nýtir þá leið farið stigvaxandi. Í þingkosningunum árið 2007 kusu um 30 þúsund manns rafrænt og í sveitastjórnarkosningunum árið 2013 kusu um 133 þúsund manns í gegnum netið eða um 20% þeirra sem nýttu atkvæðarétt sinn. 

Einnig hefur verið boðið upp á netkosningu í öðrum löndum eins og Kanada og Noregi. Í Noregi buðu tólf sveitafélög uppá netkosningu fyrir þingkosningarnar í fyrra með góðum árangri. Í öllum tilvikum eru þessi svokölluðu rafrænu skilríki notuð og uppfylla þau íslensk og evrópsk lög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×