Innlent

Meiri munur en áður milli kannana og kjörfylgis

Ingvar Haraldsson skrifar
Dræm kjörsókn er líklegasta á skekkju í könnunum í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík.
Dræm kjörsókn er líklegasta á skekkju í könnunum í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík. vísir/valli
Talsvert meiri munur var á úrslitum borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík og skoðanakönnunum en í Alþingiskosningunum fyrir ári. Þetta fullyrðir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Fjögur fyrirtæki birtu kannanir síðustu tvo dagana fyrir kosningarnar. Fylgi Sjálfstæðisflokks var að meðaltali vanmetið um 3,9 prósentustig og Framsóknarflokks um 3,6 prósentustig.

Fylgi Samfylkingar og Bjartrar framtíðar var ofmetið að meðaltali um ríflega 3 prósentustig. Fylgi Pírata var einnig ofmetið í öllum könnunum.

Grétar telur skekkjuna orsakast af því að ungt fólk hafi ekki skilað sér á kjörstað. „Kjósendur Pírata og Bjartrar framtíðar eru almennt yngri en kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.“

Grétar bætir við: „Skili unga fólkið sér ekki á kjörstað er hætta á skekkju í könnunum samanborið við niðurstöðu kosninga.“

Mestur munur var á könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og niðurstöðunum í Reykjavík. Að meðaltali 3,9 prósentustig. Munur á niðurstöðum annarra kannana, þar á meðal Fréttablaðsins og Stöðvar 2, var um 2,5 prósentustig.

Grétar segir ekki við könnunarfyrirtækin að sakast. „Skoðanakannanir kanna viðhorf þversniðs kjósenda. Ef stórir kjósendahópar greiða ekki atkvæði er hætta á að kannanir gefi ranga mynd.“ Kjörsókn í Reykjavík var 63 prósent og hefur ekki verið minni í áratugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×