Innlent

Telur slæma kjörsókn mikið áhyggjuefni

Randver Kári Randversson skrifar
Grétar Þór Eysteinsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Grétar Þór Eysteinsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Grétar Þór Eysteinsson, prófessor í stjórnmálafræði telur að dræm kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningunum sé verulegt áhyggjuefni. Þetta kom fram í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Grétar gerir ráð fyrir að nýtt met hafi verið slegið varðandi slæma kjörsókn á landinu í heild.

„Ég geri ráð fyrir því að það verði nýtt met, nýr botn í því. Sem er auðvitað áhyggjuefni vegna þess að kjörsóknin 2010 var sú lang lægsta fram að því.“

Grétar telur að dræm kjörsókn skýrist fyrst og fremst af áhugaleysi. „Auðvitað er nærtækt að skýra breytinguna sem varð 2010 með hruninu - eitthvert skeytingarleysi og vantraust og áhugaleysi, og það virðist bara ekki hafa tekist að vekja þennan áhuga aftur. Sérstaklega hjá unga fólkinu. Það virðist vera sá hópur sem hefur vantað í þessar kosningar.“

„Maður átti nú hreinlega ekki von á því að þetta héldi áfram svona bratt niður eins og það gerði núna. Þetta er verulegt áhyggjuefni að mínu mati“, sagði Grétar.

Varðandi úrslitin í Reykjavík sagði Grétar athyglisvert að Samfylking vinni mikinn sigur en Sjálfstæðisflokkur tapi miklu fylgi. Hann telur að dræm kjörsókn hafi bitnað á Bjartri framtíð, þar sem unga fólkið hafi ekki skilað sér. Ennfremur segir Grétar að lítil kjörsókn hafi gagnast sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum. 

Viðtalið í heild má hlusta á hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×