Erlent

Ólíklegt að dregið verði úr olíunotkun

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Búast má við að hitabylgjur og vatnsflóð verði algengari.
Búast má við að hitabylgjur og vatnsflóð verði algengari.
Á mánudaginn, sama daginn og loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna kynnti nýjustu stöðuskýrslu sína, efndi bandaríska olíufélagið Exxon til málþings um umhverfismál.

Þar kom fram að stjórnendur og sérfræðingar fyrirtækisins telji afar ólíklegt að ríki heims komi sér saman um að draga verulega úr notkun á jarðefnaeldsneytum, jafnvel þótt almennt sé orðið viðurkennt að notkun jarðefnaeldsneyta valdi loftslagsbreytingum og þeim fylgi margvísleg óæskileg áhrif.

„Við erum með fullnægjandi þekkingu á því, og hún er byggð á rannsóknum og vísindum, að hættan á loftslagsbreytingum er raunveruleg og að grípa þyrfti til viðeigandi ráðstafana til að taka á þeirri hættu,“ sagði Ken Conhen, einn yfirmanna Exxon. „En þegar litið er til þess hve nauðsynleg orka er fyrir líf okkar allra, þá þurfa þessar ráðstafanir að miðast við aðrar þær staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir, svo sem að losa stóran hluta mannkyns undan fátækt.“

Exxon, sem er eitt af stærstu olíufyrirtækjum heims, spáir því að losun koltvísýrings muni ná hámarki í kringum árið 2030 en síðan muni smám saman draga úr losuninni eftir því sem mannkynið nær betri tökum á öðrum orkugjöfum og komist af með minna af kolefni í eldsneyti.

Þessi spá er á svipuðum nótum og spá loftslagsnefndarinnar.

Í skýrslu loftslagsnefndarinnar segir að hvergi á jörðinni verði neinn óhultur fyrir afleiðingum hlýnunar jarðarinnar. Yfirlit yfir helstu breytingarnar, sem búast má við, er að sjá á kortinu hér að ofan.

Í Evrópu má meðal annars búast við því að hitabylgjur og vatnsflóð verði algengari og erfiðari viðureignar. Þetta muni reyna verulega á grunnstoðir samfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×