Erlent

Réðust inn í bækistöðvar sjóhersins

Freyr Bjarnason skrifar
Hermenn hliðhollir Rússum bera töskur út úr bækistöðvum sjóhersins.
Hermenn hliðhollir Rússum bera töskur út úr bækistöðvum sjóhersins. Nordicphotos/AFP
Grímuklæddir rússneskumælandi hermenn hertóku bækistöðvar úkraínska sjóhersins á Krímskaga eftir að hópur vopnaðra aðgerðarsinna hafði áður ráðist þangað inn.

Yfirvöld á Krímskaga tóku einnig til fanga yfirmann úkraínska sjóhersins og eru einnig sögð hafa komið í veg fyrir að varnarmálaráðherra Úkraínu og aðrir embættismenn ríkisstjórnarinnar gætu ferðast þangað.

Úkraínski herinn, sem er mun fámennari en sá rússneski á Krímskaga, hefur verið undir miklum þrýstingi síðan svæðið varð að nafninu til hluti af Rússlandi á þriðjudaginn eftir að greidd höfðu verið atkvæði um það.

Nokkur hundruð vopnaðra aðgerðasinna fengu enga mótspyrnu þegar þeir réðust inn í bækistöðvar sjóhersins í borginni Sevastopol, þar sem floti Rússa í Svartahafi er með heimahöfn sína. Alls hafa tugir þúsunda hermanna undir stjórn Rússa náð yfirráðum á Krímskaga.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, bætti í gær Krímskaga við opinbert kort af Rússlandi. „Í hugum almennings hefur Krímskagi alltaf verið mikilvægur hluti af Rússlandi,“ sagði Pútín í ávarpi sínu.

Anders Fogh Rasmussen, aðalritari NATO, sagði í ræðu sinni í gær að framrás Rússa í Úkraínu væri mesta ógnin við öryggi í Evrópu síðan í kalda stríðinu. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, varaði við því að Bandaríkin og Evrópa muni beita frekari refsiaðgerðum gegn Rússlandi. Nú þegar hefur refsiaðgerðum verið beitt gegn hópi rússneskra og úkraínskra embættismanna fyrir að hafa stutt atkvæðagreiðsluna um að Krímskagi slíti sig frá Úkraínu.

„Ef Rússland heldur áfram að skipta sér af Úkraínu erum við tilbúnir með frekari refsiaðgerðir,“ sagði Barack Obama, Bandaríkjaforseti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.