Enski boltinn

Rodgers treystir enn hópnum hjá Liverpool

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Rodgers horfir á nýja manninn Balotelli falla
Rodgers horfir á nýja manninn Balotelli falla vísir/getty
Brendan Rodgers knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool segist bera fullt traust til leikmannahóps félagsins eftir slaka frammistöðu og tap gegn Aston Villa í gær.

Rodgers tefldi fram sex leikmönnum sem gengu til liðs við Liverpool í sumar í gær og byrjaði með ungstirnið Raheem Sterling á bekknum.

„Í byrjun tímabilsins sagði ég að ég þyrfti að treysta öllum leikmönnum félagsins,“ sagði Rodgers við fjölmiðla í Englandi.

„Við eigum tvo stóra mánuði framundan, mjög spennandi mánuði og ég hélt að ég gæti nýtt hópinn gegn Aston Villa.

„Ef Sterling hefði ekki leikið landsleik í vikunni hefði hann byrjað. Hann kom inn á og var ógnandi. Hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur.

„Við erum búnir að byggja upp hóp hér og ég treysti öllum leikmönnunum. Sem hópur og sem lið áttum við ekki góðan leik gegn Villa,“ sagði Rodgers sem hefur engar áhyggjur af því hve illa nýju leikmennirnir í sóknarlínu Liverpool, Luzar Markovic, Adam Lallana og Mario Balotelli, náðu saman.

„Við vorum frábærir gegn Tottenham. Við höfum keypt mjög góða leikmenn sem ég er ánægður með. Við náðum bara ekki að skapa færi,“ sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×