Erlent

Krafa í Svíþjóð um að ekki verði hægt að þagga niður í börnum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
120 af 296 börnum á Íslandi, sem urðu vitni að heimilisofbeldi í tengslum við útköll lögreglu frá miðjum september 2011 til maíloka 2013, fengu áfallameðferð.
120 af 296 börnum á Íslandi, sem urðu vitni að heimilisofbeldi í tengslum við útköll lögreglu frá miðjum september 2011 til maíloka 2013, fengu áfallameðferð. Vísir/E.Ól
Jafnaðarmenn í Svíþjóð þrýsta nú á ríkisstjórnina um að breyta lögum um vitnisburð. Lögmenn og saksóknarar segja það vandamál að foreldrar sem eru ákærðir geti komið í veg fyrir að börn þeirra, sem ekki eru málsaðilar, geti borið vitni gegn þeim. Sé barnið mjög ungt ákveður forráðamaður þess hvort það ber vitni, að því er segir í frétt á vef Dagens Nyheter.

Þar hefur verið greint frá mörgum tilvikum þar sem foreldri, sem hefur beitt systkini barnsins ofbeldi, hefur getað komist hjá refsingu með því að koma í veg fyrir vitnisburð barnsins. Samtök um réttindi barna í Svíþjóð, Bris, gagnrýna í skýrslu til Sameinuðu þjóðanna hvernig hægt er að þagga niður í röddum barna í réttarsal.

Framkvæmdastjóri Bris, Kattis Ahlström, segir það ofbeldi í sjálfu sér að koma í veg fyrir að barn vitni gegn foreldri sem hefur misþyrmt fjölskyldumeðlim. Börn frá heimilum þar sem ofbeldi er beitt lifi undir gríðarlegum þrýstingi. Mikið þurfi að koma til svo að þau þori að bera vitni. Sé komið í veg fyrir það margfaldist skaðinn.

Umboðsmaður barna á Íslandi, Margrét María Sigurðardóttur, tekur undir að það geti verið erfitt fyrir barn sem verður vitni að ofbeldi á heimili sínu að bera vitni gegn foreldri. Æskilegt sé að skipa þeim börnum sérstakan réttargæslumann.

„Barni er heimilt að bera vitni ef það vill það. Að sjálfsögðu er alltaf hætta á því að barn verði fyrir þrýstingi frá foreldrum um að bera ekki vitni í málum sem varða heimilisofbeldi. Þrýstingurinn getur þó líka verið í hina áttina. Börn geta því lent í mikilli tryggðarklemmu við þessar aðstæður, þar sem þeim þykir vænt um foreldra sína. Er því mikilvægast í þessum málum, eins og öðrum, að hafa að leiðarljósi það sem er barninu fyrir bestu,“ segir Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×