Maður hefur verið handtekinn vegna gruns um morð eftir að kona á fertugsaldri og ungabarn féllu niður klettavegg við grjótnámu í Dalby, skammt frá Lundi í Svíþjóð, í gærkvöldi.
Konan og níu mánaða gamalt barnið voru flutt mjög alvarlega slösuð á sjúkrahúsið í Lundi þar sem þau létust. Upphaflega var talið að um slys hafi verið að ræða en grunur lögreglu beindist fljótt að manninum sem er barnsfaðir hinnar látnu og faðir barnsins.
Í frétt Sydsvenskan segir að maðurinn sé grunaður um að hafa ýtt konunni og barninu ofan í námuna sem er fyllt vatni.
Náman, Dalby stenbrott, er vinsæll áfangastaður fyrir nærsveitunga á sumrin þar sem fjöldi fólks gerir sér það að leik að stökkva ofan af háum kletti ofan í vatnið.
Kona og ungabarn myrt við grjótnámu í Dalby
Atli Ísleifsson skrifar
