Erlent

Sonur Mitterrand vill inn á sænska þingið

Atli Ísleifsson skrifar
François Mitterrand gegndi embætti Frakklandsforseta á árunum 1981 til 1995 og lést 1996.
François Mitterrand gegndi embætti Frakklandsforseta á árunum 1981 til 1995 og lést 1996. Vísir/AFP
Sonur François Mitterrand, fyrrum Frakklandsforseta, er nú í framboði fyrir sænska hægriflokkinn Moderaterna en þingkosningar fara fram í Svíþjóð þann 14. september næstkomandi.

Hravn Forsne er í fimmta sæti á lista Moderaterna í Kungsbacka og er möguleiki að hann verði kosinn inn á þing í haust. Hinn 25 ára Forsne segist í samtali við Kungsbacka-Nytt þó vilja verða þekktur vegna eigin verðleika, en ekki föður síns.

Forsne staðfestir nú að Mitterrand, sem var sósíalisti, sé í raun faðir hans. „Það er rétt. François Mitterrand var pabbi minn,“ segir hann í samtali við blaðið.

Í frétt DN segir að móðir Forsne heiti Chris Forsne og starfi sem blaðamaður. Í viðtali við Aftonbladet fyrir tveimur árum sagði hún frá löngu sambandi sínu við Mitterrand en vildi þá ekki ræða um hver væri faðir barnsins sem hún fæddi árið 1988.

Hravn Forsne segist hafa hitt föður sinn fimm eða sex sinnum á þeim árum sem móðir hans bjó í Frakklandi, en hann var sjö ára þegar Mitterrand lést úr krabbameini.

Hann segir föður sinn þó ekki hafa haft áhrif á pólitískar skoðanir sínar. „Ef tengja á slíkt við fjölskylduna þá snýst það frekar um þær stjórnmálaumræður sem ég hef átt við móður mína.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×