Erlent

Barnakór ABC í þriðja sæti landskeppninnar í Kenía

Randver Kári Randversson skrifar
Frá tónleikum kórsins í Naíróbí fyrir stuttu.
Frá tónleikum kórsins í Naíróbí fyrir stuttu. Mynd/ABC
Barnaskólakór ABC barnahjálpar varð í þriðja sæti í landskeppni barnakóra í Kenía, sem fram fór í borginni Mombasa í fyrradag. Verður þetta að teljast glæsilegur árangur, en mörg þúsund kórar skráðu sig til keppni í upphafi.

Að sögn Þórunnar Helgadóttur, sem veitir hjálparstarfi ABC í Kenía forstöðu, ríkir mikil stemning meðal barnanna og starfsfólks vegna hins góða árangur í keppninni. Hún segir alla vera að springa úr sigurgleði, en fáheyrt þyki að svona lítill og óþekktur skóli komist svona langt í keppninni.

Keppnin byrjar í hreppunum og sigurvegararnir þaðan fara í sýslukeppnina . Það eru 47 sýslur í landinu og í hverri sýslu keppa nokkrir tugir af kórum. Sigurvegararnir úr sýslukeppninni keppa svo við nálægar sýslur og efstu kórarnir úr þeim keppnum fara í landsúrslitin. Eins og áður segir varð kór ABC barnahjálpar í þriðja sæti í lokakeppni landsúrslitanna.

ABC barnahjálp hóf hjálparstarf í Kenía haustið 2006 og starfrækir skóla og heimavist fyrir fátæk börn á tveimur stöðum í landinu. Starfið nær nú til um 800 barna í Kenía. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×