185 nepalskir vinnumenn létu lífið árið 2013 í byggingarvinnu fyrir Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Katar sem fer fram árið 2022. Þetta kemur fram í úttekt breska blaðsins The Guardian, sem hefur reglulega greint frá óviðunandi aðstæðum erlends vinnufólks í aðdraganda mótsins.
Á undanförnum tveimur árum hafa að minnsta kosti 385 Nepalar látið lífið við störf sín í smáa furstaríkinu. Staðfestur fjöldi dauðsfalla vinnufólks frá öðrum löndum, til að mynda Indlandi, Pakistan og Sri Lanka, liggur ekki fyrir. Í rúmlega helmingi tilfella árið 2013 var dánarorsök verkamannanna hjartastopp af einni eða annari gerð, en byggingarvinnan fyrir mótið þykir einstaklega erfið og fer fram í rúmlega 40 gráðu hita yfir sumarmánuðina.
Samtökin Amnesty International gáfu út skýrslu í nóvember síðastliðnum þar sem greint var frá því að innfluttir verkamenn í Katar væru látnir vinna í tólf klukkutíma í senn, væru hýstir í skelfilegum aðstæðum og að nánast enginn fengi að halda vegabréfi sínu við innkomu í landið.
Alþjóðaknattspyrnusambandið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að þrýsta ekki á yfirvöld í Katar að bæta úr framkomu sinni gagnvart innflutta vinnuaflinu.
185 nepalskir verkamenn létust í Katar í fyrra
Bjarki Ármannsson skrifar
