Hollenska dagblaðið De Telegraaf fullyrðir á heimasíðu sinni í dag að Brasilíumaðuinn Ronaldinho hafi skrifað undir tveggja og hálfs árs samning við tyrkneska liðið Besiktas.
Ronaldinho leiddi lið sitt, Atletico Mineiro, til sigur í Copa Libertadores í Suður-Ameríku á síðasta ári og vann sér sæti á ný í brasilíska landsliðinu.
Í síðustu viku var fullyrt að Roberto Assis, bróðir Ronaldinho og umboðsmaður, hafi átt í viðræðum við Besiktas undanfarna sex mánuði. Nú virðist sem að samkomulag sé í höfn en hann mun vera 10-15 milljóna evra virði.
Ronaldinho, sem er 33 ára gamall, á glæsilegan feril að baki en hann lék með PSG, Barcelona og AC Milan í Evrópu áður en hann hélt aftur til Flemengo í Brasilíu árið 2011. Hann samdi svo við Atletico Mineiro í fyrra.
