Innlent

Hlutverk NATÓ að breytast vegna ástandsins í Úkraínu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Anders Fogh Rasmussen framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATÓ.
Anders Fogh Rasmussen framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATÓ.
Hundrað og fimmtíu bandarískir hermenn taka nú þátt í heræfingu í Litháen ásamt litháíska hernum. Bandaríkjamenn hafa sent hermenn til fjögurrra ríkja í Austur-Evrópu eftir að Rússar immlimuðu Krímskaga til að sýna lýðveldum fyrrum Sovétríkjanna stuðning. Hlutverk Atlantshafsbandalagsins, NATÓ, er að breytast vegna ástandsins í Úkraínu. 

Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu, NATÓ, er umhugað að sýna stjórnvöldum í Moskvu að lýðveldi fyrrum Sovétríkjanna njóti verndar þeirra en nú stendur yfir heræfing í vesturhluta Litháen þar sem 150 bandarískir hermenn taka þátt við hlið lítháískra kollega sinna.

Reuters greinir frá því að þetta sé aðeins æfing en hún þykir táknræn í ljósi þess óöryggis sem gripið hefur um sig meðal ríkja í Austur-Evrópu eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga. Fyrstu viðbrögð Bandaríkjamanna við hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu var að senda 600 hermenn til þriggja baltneskra ríkja, Eistlands, Lettlands og Litháen og jafnframt til Póllands til að taka þátt í heræfingum til að styrkja nærveru NATÓ í Austur-Evrópu.

Gjörbreytt staða NATÓ vegna ástandsins í Úkraínu

Þrátt fyrir þetta hafa NATÓ-ríkin engin áform enn sem komið er um íhlutun í Úkraínu. Talið er að ástandið í Úkraínu muni hafa meiriháttar áhrif á NATÓ og samband aðildarríkja bandalagsins við Rússland, stefnu bandalagsins og hvernig aðildarríki þess þjálfa heri sína þótt takmarkaður vilji sé til þess meðal ríkjanna að hverfa aftur til hugarfars Kalda stríðsins.

Í þessu tilliti er talið að ástandið í Úkraínu leiði til þess að meginmarkmið og áherslur NATÓ verði aftur að verja 28 ríki bandalagsins en á síðustu árum hafa áherslur þess aðallega beinst að Afganistan.

Alexander Vershbow aðstoðarframkvæmdastjóri NATÓ segir í samtali við Reuters að NATÓ-ríkin hafi undanfarin 20 ár búið við ástand þar sem engri hernaðarlegri ógn sé til að dreifa úr austri. Þessi staða hafi nú breyst, en Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATÓ, hefur kallað ástandið í Úkraínu "game changer."

Auk Bandaríkjanna hafa Bretland, Frakkland, Danmörk, Kanada og Þýskaland lofað mannafla í heræfingar NATÓ í baltnesku ríkjunum, Póllandi og Rúmeníu. 

Ísland er eitt stofnaðila NATÓ sem komið var á fót með Atlantshafssáttmálanum sem var undirritaður í Washington 4. apríl 1949. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×