Erlent

Nýnasistar réðust á femínista

vísir/afp
Sex manns voru fluttir á sjúkrahús eftir hnífaárás í Malmö aðfaranótt sunnudags. Þrír hafa verið handteknir vegna málsins og eru þeir samkvæmt upplýsingum sænsku lögreglunnar yfirlýstir nasistar. Aftonbladet fjallar um málið.

Á laugardagskvöld var skipulögð ganga til að mótmæla ofbeldi karla gegn konum á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Um tvö hundruð voru í göngunni, sem skipulögð er af femínistum í borginni ár hvert.

Gangan fór að mestu leyti friðsamlega fram en rétt eftir að henni lauk var ráðist á sexmenningana sem höfðu verið í göngunni. Haft er eftir sjónarvottum að ekki hafi verið um slagsmál að ræða heldur hrottalegt ofbeldi af hálfu árásarmannanna. Einn þeirra sem ráðist var á fékk lífshættulega áverka og var líðan hans enn óstöðug í gær.

Þrír menn hafa verið handteknir grunaðir um tilraun til manndráps. Tveir menn voru handteknir strax um nóttina og í gær var sá þriðji handtekinn. Lögreglan rannsakar nú málið og tekur skýrslu af sjónarvottum. Hún gefur því ekki upp miklar upplýsingar að svo stöddu fyrir utan að talið er að árásin hafi verið skipulögð af meðlimum í nasistahreyfingu.

Árásin í Malmö hefur vakið hörð viðbrögð í Svíþjóð. Þúsundir söfnuðust saman í Möllevangstorginu í Malmö í gær, sem og öðrum borgum Svíþjóðar, til að mótmæla árásinni og sýna fórnarlömbunum stuðning í verki






Fleiri fréttir

Sjá meira


×