Innlent

Gagnrýna harðlega svik á samkomulagi um styrki til almenningssamgangna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Óskar Steinn Ómarsson, formaður Bersans í Hafnarfirði.
Óskar Steinn Ómarsson, formaður Bersans í Hafnarfirði.
Vegna fréttar sem birtist í Fréttablaðinu í morgun um það að þrjú hundruð milljónir vanti upp á að ríkið standi við samning sem gerður var við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um almenningssamgöngur hafa aðildarfélög Ungra jafnaðarmanna á höfuðborgarsvæðinu sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu.

Ungir jafnaðarmenn á höfuðborgarsvæðinu eru vonsviknir vegna svika ríkisstjórnarinnar eins og þau orða það.

„Aðildarfélög Ungra jafnaðarmanna á höfuðborgarsvæðinu - Bersinn í Hafnarfirði, Hallveig í Reykjavík og Rannveig í Kópavogi - gagnrýna harðlega svik ríkisstjórnarinnar á samkomulagi um styrki til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir einnig að samkvæmt samkomulagi sem fulltrúar Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skrifuðu undir í maí árið 2012 sé ríkið skuldbundið til að styrkja almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu um einn milljarð á ári í áratug. Markmiðin með samningnum eru m.a. að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og að lækka samgöngukostnað heimila og samfélagsins alls.

„Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin ætli að svíkja þetta góða samkomulag án þess að taka um það einhverja umræðu, segir Óskar Steinn Ómarsson, formaður Bersans í Hafnarfirði. Það þýðir ekki að fara einhverja bakdyraleið og lækka smám saman framlögin á fjárlögum. Ríkisstjórnin verður að vera hreinskilin um hver stefna hennar er varðandi almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, og við köllum eftir viðbrögðum innanríkisráðherra í þessu máli.“

Ljóst sé að til að leysa umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins og stuðla að minni mengun og bættu loftslagi þurfi að bæta almenningssamgöngur.

„Félög Ungra jafnaðarmanna á höfuðborgarsvæðinu hvetja ríkisstjórnina til að standa við samkomulagið og gera viðeigandi breytingar á fjárlagafrumvarpinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×