Erlent

Hrekkjavakan innandyra vegna ísbjarna

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér er ísbjörn á ruslahaugunum við Avriat.
Hér er ísbjörn á ruslahaugunum við Avriat.
Íbúar í kanadíska bænum Avriat fá ekki að halda hrekkjuvökuhátíð utandyra vegna hræðslu við ísbirni.

Eftir því sem meðalhiti hefur hækkað á svæðinu hefur ísinn bráðnað í Hudson-flóanum, í norðurhluta Kanada. Íbirnirnir hafa því neyðst til að færa sig sífellt nær bænum. Í fyrra birti vefurinn Men's Journal frétt um að bærinn væri umsetinn af ísbjörnum, svo slæmt er ástandið orðið.

Þetta er í fyrsta sinn sem krakkarnir í bænum mega ekki ganga á milli húsa og biðja um sælgæti eins og hefðin gerir ráð fyrir. Hátíðarhöldin hafa verið færð inn í hátíðarsal bæjarins.

„Ímyndið ykkur tólfhundruð börn að ganga á milli húsa og ísbirnir allt um kring," segir Steve England, sem á sæti í bæjarstjórn og bætir við: „Það liggur ljóst fyrir að útkoman yrði einhverskonar harmleikur.

Leo Ikakhik, sem er sérstakur ísbjarnasérfræðingur bæjarins, segir í viðtali að aldrei hafi íbúi bæjarins slasast af völdum ísbjarna. En hann segir að í fyrra hafi einn ísbjörn drepið sleðahund sem varð á vegi hans í september í fyrra

Sérfræðingur sagði í samtali við BBC Nature árið 2011 að hækkandi hitastig á þessum slóðum myndi gera það að verkum að ísbirnir myndu sjást sífellt nær mannabyggð. Til að bregðast við þessari umferð ísbjarna hafa bæjaryfirvöld komið fyrir rafmagnsgirðingu í kringum bæinn.

Hér má sjá ísbjörn við rafmagnsgirðinguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×