Innlent

Karlmaður ákærður fyrir tilraun til manndráps

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Tuttugu og þriggja ára karlmaður hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps. Manninum er gefið að sök að hafa ráðist á 21 árs gamla unnustu sína á heimili þeirra í Grafarholti í júlí síðastliðnum.

Maðurinn er sakaður um að hafa veist að unnustu sinni þannig að hún féll við og sparkað í andlit hennar þar sem hún lá á gólfinu, slegið hana í andlitið og inni á baðherbergi íbúðarinnar stungið hana þremur stungum með hnífi í hnakka, háls og kvið. Konan hlaut mjög alvarlega áverka, meðal annars djúpt sár sem gekk í gegnum kviðvegg hennar, inn á kviðarhol og rifu á nýra. Áverkar á andliti hennar voru einnig umtalsverðir, en efri vör hennar rifnaði í sundur, tönn hennar brotnaði og hlaut hún fleyðursár á öðru auga.

Ríkissaksóknari höfðar málið á hendur manninum og farið er fram á að hann verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Til vara er maðurinn ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Konan krefst þess að maðurinn greiði henni rúmlega átta milljónir króna í bætur.


Tengdar fréttir

Flutt á slysadeild eftir hnífsstungu í Grafarholtinu

Kona var flutt á slysadeild á fimmta tímanum í morgun eftir að hún varð fyrir hnífsstungu í heimahúsi í Grafarholti. Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan konunnar en meintur árásarmaður var handtekinn skammt frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×