Erlent

Óttast aðra flóðbylgju

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Maður fyrir utan heimili sitt í þorpinu Veliki Crljeni, skammt frá Belgrad, höfuðborg Serbíu.
Maður fyrir utan heimili sitt í þorpinu Veliki Crljeni, skammt frá Belgrad, höfuðborg Serbíu. Vísir/AP
Mikill viðbúnaður er í Serbíu þessa dagana vegna ótta við frekari flóðbylgjur. Veðurfræðingar þar í landi gera ráð fyrir því að vatnsborð einnar lengstu ár Serbíu, Sava, geti farið hækkandi og flætt yfir bakkana sökum mikillar úrkomu.

Flóðið gæti þar með ógnað stærsta orkuveri landsins, Nikola Tesla, sem stendur við bakka árinnar. Orkuverið sér stórum hluta landsins fyrir rafmagni og gæti orðið gífurlegt tjón ef orkuverið yrði fyrir skemmdum.

Forsætisráðherra Serbíu, Aleksandar Vucic, segir að ríkisstjórn hans leggi áherslu á að vernda orkuverið, en hann hefur einnig kallað eftir aðstoð nágrannaríkjanna. Um helgina fór fram samstöðufundur á vegum Félagasamtaka Serba á Íslandi, í séra Friðrikskapellu, þar sem rætt var hvernig best væri að koma fólkinu til aðstoðar.

Flóðið á Balkanskaga hefur nú þegar kostað að minnsta kosti 35 manns lífið og þá hafa tugir þúsunda flúið heimili sín. Flóðið hefur þó ekki aðeins lagt Serbíu og Bosníu í rúst, Króatía hefur einnig fengið að kenna á hamförunum. Yfirvöld í Serbíu og Bosníu segja úrhellið sem flóðunum veldur það mesta frá því að mælingar hófust.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×