Erlent

Belgískur faðir reynir að endurheimta syni úr röðum IS

Atli Ísleifsson skrifar
Bontinck segir að honum hafi stuttlega verið rænt þegar hann reyndi að endurheimta son sinn, en hafði að lokum uppi á Jejoen og sannfærði hann um að snúa aftur heim.
Bontinck segir að honum hafi stuttlega verið rænt þegar hann reyndi að endurheimta son sinn, en hafði að lokum uppi á Jejoen og sannfærði hann um að snúa aftur heim. Mynd/NBC
Dimitri Bontinck, belgískur faðir sem fór til Sýrlands og endurheimti son sinn sem gengið hafði til liðs við vígasveitir IS, aðstoðar nú foreldra annarra í sömu stöðu að fá syni sína aftur til Evrópu.

Fréttamaður NBC hitti Bostinck á landamærum Tyrklands og Sýrlands þar sem hann undirbjó aðra för til Sýrlands til að hafa uppi á ungum Evrópumönnum í sveitum IS og ná þeim aftur heim.

Bontinck segir að áætlað sé að milli fimm og sex þúsund liðsmenn IS séu með evrópskt ríkisfang og aðrir tíu til fimmtán þúsund frá Miðausturlöndum.

Í frétt NBC segir að þrátt fyrir hrottafengnar aðferðir samtakanna þá eru flestir erlendir liðsmenn þeirra sannir trúmenn sem engan áhuga hafa á að yfirgefa málstaðinn og snúa aftur til Vesturlanda. „98 prósent verða eftir,“ segir Bontinck. „Einungis tvö prósent liðsmanna snýst hugur og snúa aftur heim.“

Bontinck yfirgaf heimili sitt í Antwerpen í Belgíu á síðasta ári og hélt til Sýrlands til að hafa uppi á Jejoen, átján ára syni sínum. Bontinck lýsir syni sínum sem hugsjónamanni sem gekk til liðs við fyrirrennara IS þar sem hann vildi aðstoða aðra múslíma í átökum sínum við Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og stuðningsmönnum hans. „Þetta var það eina í stöðinni. Aðgerðir. Ég gat ekki setið heima.“

Bontinck segir að honum hafi stuttlega verið rænt, en að lokum haft uppi á Jejoen og sannfært hann um að snúa aftur heim. „Við beitum aldrei valdi.“

Frá því að Bontinck náði að sannfæra Jejoen um að snúa aftur heim hefur hann farið fyrir sambærilegum leiðöngrum eftir að feður annarra hafa beðið hann um aðstoð. Segir að þrír leiðangranna hafi borið árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×