Erlent

Hernaðarumsvif Rússa í Eystrasalti aldrei meiri

Atli Ísleifsson skrifar
Tomasz Siemoniak (t.h.), varnarmálaráðherra Póllands, hér ásamt Jean-Yves Le Drian (t.v.) varnarmálaráðherra Frakklands.
Tomasz Siemoniak (t.h.), varnarmálaráðherra Póllands, hér ásamt Jean-Yves Le Drian (t.v.) varnarmálaráðherra Frakklands. Vísir/AFP
Varnarmálaráðherra Póllands segir hernaðarumsvif Rússa í og í kringum Eystrasalt hafi aldrei verið meiri en í þessari viku. Tomasz Siemoniak segir mesta virkni hafa verið á alþjóðlegum hafsvæðum og loftrými og að Svíþjóð sé það land sem hafi orðið fyrir mestum áhrifum.

Herflugvélar sænska hersins og herja NATO-ríkja hafa fylgst með flugi rússneskra herflugvéla í heimshlutanum. Spenna milli Rússa og Vesturveldanna hefur aukist mikið að undanförnu vegna deilunnar í Úkraínu.

Siemoniak segir að Rússar séu ekki að undirbúa árás en að þeir væru að láta reyna á varnir NATO sem „þjóni ekki þeim tilgangi að byggja upp góð samskipti og traust“.

Siemoniak segir í samtali við pólsku sjónvarpsstöðina TVN24 að ekki sé þörf á að setja pólska herinn í viðbragðsstöðu.

Fyrrum Sovétlýðveldin Eistland, Lettland og Litháen gengu í NATO árið 2004. NATO og úkraínsk stjórnvöld hafa sakað rússnesk stjórnvöld um að koma vopnum í hendur aðskilnaðarsinna sem eru á bandi Rússlandsstjórnar. Stjórnvöld í Rússlandi hafa hins vegar hafnað þeim ásökunum, en viðurkenna að rússneskir „sjálfboðaliðar“ hafi aðstoðað aðskilnaðarsinnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×