Erlent

Greenpeace sakað um að skemma heimsminjar í Perú

Atli Ísleifsson skrifar
Yfirvöld í Perú fullyrða að liðsmennirnir hafi skilið eftir fótspor sem verða mögulega eftir í fleiri þúsundir ára.
Yfirvöld í Perú fullyrða að liðsmennirnir hafi skilið eftir fótspor sem verða mögulega eftir í fleiri þúsundir ára. Vísir/AFP
Liðsmenn umhverfisverndunarsamtakanna Greenpeace eru sakaðir um að hafa unnið skemmdir á hinum heimsfrægu Nazca-línum í perúskri eyðimörk. Línurnar eru meðal umfangsmestu mannvirkja fornaldar.

Greenpeace unnu að gjörningi í eyðimörkinni á mánudaginn þar sem þeir breiddu út borða til að koma skilaboðunum „Time for Change! The Future is Renewable. Greenpeace“ (Tími fyrir breytingar! Framtíðin er endurnýjanleg. Greenpeace) áleiðis í nánd við línurnar.

Yfirvöld í Perú fullyrða að liðsmennirnir hafi skilið eftir fótspor sem verða mögulega eftir í fleiri þúsundir ára.

Fulltrúar perúskra yfirvalda hafa tilkynnt að til standi að ákæra fólkið sem hefur nú beðist afsökunar á skemmdunum.

Línurnar eru á heimsminjaskrá, en talið er að þær hafi verið gerðar einhvern tímann á árunum 500 fyrir Krist og 500 eftir Krist. Línurnar sýna risavaxnar myndir af verum og plöntum.

Vanalega má enginn heimsækja staðinn og þurfa jafnvel forsetar og ráðherrar að sækja um sérstakt leyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×