Erlent

Evrópskum veitingastöðum skylt að greina frá ofnæmisvöldum

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að rúmlega 17 milljónir Evrópubúa þjáist af einhvers konar fæðuofnæmi.
Áætlað er að rúmlega 17 milljónir Evrópubúa þjáist af einhvers konar fæðuofnæmi. Vísir/Getty
Veitingastaðir og skyndibitastaðir í Evrópu þurfa nú að greina viðskiptavinum frá því ef matur þeirra inniheldur mögulega ofnæmisvalda.

Samkvæmt nýjum reglum Evrópusambandsins þarf að veita upplýsingar varðandi fjórtán mögulega ofnæmisvalda, þeirra á meðal hnetur, mjólk, sellerí, glúten, soja og hveiti.

Nýju reglurnar tóku gildi á laugardaginn og ná einnig yfir þær máltíðir sem bornar eru fram í bakaríum, kaffihúsum, hjúkrunarheimilum, auk tilbúinna rétta í stórmörkuðum. Allir þeir staðir sem gerast ítrekað sekir um brot munu sæta sektum.

Í frétt BBC kemur fram að rúmlega 17 milljónir Evrópubúa þjáist af einhvers konar fæðuofnæmi.

Fæðutegundirnar sem reglurnar ná til eru sellerí, kornvörur sem innihalda glúten, skeldýr, egg, fiskur, lúpín, mjólk, lindýr svo sem kræklingar og sniglar, sinnep, hnetur, jarðhnetur, sesamfræ, soja og brennisteinsdíoxíð sem er meðal annars að finna í þurrkuðum ávöxtum og gosdrykkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×