Enski boltinn

Gylfi og félagar lutu í gras fyrir Tottenham | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ben Davies bjargar með frábærri tæklingu.
Ben Davies bjargar með frábærri tæklingu. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Swansea City töpuðu 1-2 fyrir Tottenham á heimavelli í seinni leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Með sigrinum komst Spurs upp í 7. sæti deildarinnar, en Swansea er komið niður í það níunda.

Mörkin í leiknum má sjá hér að neðan.

Harry Kane kom Tottenham yfir strax á 4. mínútu. Christian Eriksen tók hornspyrnu frá hægri, Kane reis hæst allra í teignum og skallaði boltann í netið. Þetta var 12. mark hans á tímabilinu.

Swansea var nálægt því að jafna metin á 20. mínútu þegar Wilfried Bony slapp inn fyrir vörn Tottenham. Ben Davies, fyrrverandi leikmaður Swansea, bjargaði hins vegar frábærlega áður en Bony náði skoti á markið.

Bony var ógnandi í leiknum og hann jafnaði metin á 48. mínútu með skoti af stuttu færi. Þetta var 8. deildarmark Bonys í vetur og 20. deildarmark hans á árinu 2014.

Gylfi Þór Sigurðsson átti gott skot framhjá á 66. mínútu og skömmu síðar skaut Jefferson Montero einnig framhjá í fínu færi.

Það var hins vegar Tottenham sem átti síðasta orðið í þessum leik. Þegar ein mínúta var eftir fékk Eriksen boltann hjá vinstra vítateigshorninu og lagði boltann smekklega í markið og tryggði Spurs stigin þrjú.

Gylfi spilaði allan leikinn gegn sínum gömlu félögum.

Swansea 0-1 Tottenham Swansea 1-1 Tottenham Swansea 1-2 Tottenham



Fleiri fréttir

Sjá meira


×