Enski boltinn

Lampard: Hélt ég myndi ekki ná þessum áfanga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lampard þakkar Samir Nasri fyrir stoðsendinguna á sig gegn Leicester í gær.
Lampard þakkar Samir Nasri fyrir stoðsendinguna á sig gegn Leicester í gær. vísir/getty
Sem kunnugt er komst Frank Lampard upp að hlið Thierry Henry á listanum yfir markahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann skoraði sigurmark Manchester City gegn Leicester City í gær. Markið sögulega má sjá hér að neðan.

„Ég er mjög ánægður með þennan áfanga, ég hélt að ég myndi ekki ná þessu. Ég ber mikla virðingu fyrir Henry, hann er einn af þeim bestu í sögu úrvalsdeildarinnar,“ sagði Lampard eftir leikinn gegn Leicester.

Hann hefur nú skorað 175 mörk í 588 leikjum í úrvalsdeildinni, en hann og Henry eru í jafnir í 4. sæti á markalistanum.

Alan Shearer trónir á toppi hans, en hann skoraði á sínum tíma 260 mörk fyrir Newcastle og Blackburn. Andy Cole er í öðru sæti með 187 mörk og Wayne Rooney kemur þar á eftir með 178 mörk.

Frank Lampard hefur skorað þessi 175 mörk fyrir þrjú félög. Hann skoraði 24 mörk fyrir West Ham, 147 fyrir Chelsea og nú fjögur fyrir Manchester City.

Það er þó óvíst hvort mörkin verði mikið fleiri hjá Lampard, en hann er á láni hjá City frá bandaríska liðinu New York City. Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Man City, hefur þó lýst yfir áhuga á að framlengja dvöl Lampards hjá Englandsmeisturunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×