Enski boltinn

Rodgers: Verð að halda áfram að leita lausna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rodgers var með böggum hildar á hliðarlínunni í dag.
Rodgers var með böggum hildar á hliðarlínunni í dag. vísir/getty
Brendan Rodgers var súr í broti eftir tap Liverpool gegn Manchester United á Old Trafford í dag.

„Mér fannst við gera nóg til að vinna leikinn, en þetta var tímabilið okkar í hnotskurn.

„Við sköpuðum svo mörg færi, en David De Gea var maður leiksins. Hann hefur átt 4-5 svona leiki á tímabilinu. David er frábær markvörður, hann er góður að verja skot, auk þess sem hann kemur boltanum vel frá sér, hann veit hvenær hann á gefa stuttar eða langar sendingar,“ sagði Rodgers eftir leikinn.

Hann var ósáttur við varnarleik Liverpool í dag, en liðið er nú búið að fá á sig 22 mörk í 16 deildarleikjum.

„Við gerðum varnarmistök sem reyndust dýrkeypt. Við verðum bara að halda áfram, við vitum hverjar lausnirnar eru og vonandi munu strákarnir öðlast sjálfstraust á nýjan leik.

„Við vorum betra liðið í fyrri hálfleik en þú mátt ekki gera svona mistök eins og við gerðum. Við vorum nálægt því að komast yfir en svo fóru þeir í sókn skoruðu því við dekkuðum ekki manninn sem kom hlaupandi af miðjunni,“ sagði Rodgers sem hefur enn trú á að honum takist að snúa gengi Liverpool við.

„Við sköpuðum færi í dag sem við höfum ekki verið að gera. Ég mun halda áfram að leita lausna. Þetta hefur verið erfitt í ár, en svona er þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×