Enski boltinn

Solskjaer: Besta frammistaða United-markmanns á Old Trafford sem ég hef séð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Gea átti stórleik gegn Liverpool á Old Trafford.
De Gea átti stórleik gegn Liverpool á Old Trafford. Vísir/Getty
David De Gea átti stórleik þegar Manchester United bar sigurorð af Liverpool með þremur mörkum gegn engu á Old Trafford í dag. Spánverjinn varði alls átta skot í leiknum, mörg hver úr opnum færum. Hann varði t.a.m. þrisvar frá Raheem Sterling eftir að hann slapp inn fyrir vörn United.

Fólk kepptist við að hrósa De Gea eftir leikinn og meðal þeirra sem það gerðu var Ole Gunnar Solskjaer, fyrrverandi leikmaður United og goðsögn á Old Trafford. Solskjaer var í hlutverki álitsgjafa hjá Sky Sports í dag og hann hafði þetta um frammistöðu De Gea að segja:

„Ég hef séð markverði á borð við Peter Schmeichel og Edwin van der Saar eiga stórleiki - en þetta var sennilega besta frammistaða sem ég hef séð hjá United-markverði á Old Trafford,“ sagði Norðmaðurinn og hélt áfram:

„Hann varði sex dauðafæri. Hann er mjög líkur David Seaman að því leyti að hann stendur lengi og það er erfitt að skora framhjá honum. Sem framherji viltu að markvörðurinn taki ákvörðun, en De Gea stendur og bíður.“

De Gea og félagar hans hafa nú unnið sex leiki í röð, en United er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 31 stig eftir 16 leiki.


Tengdar fréttir

Mögnuð frammistaða De Gea | Myndband

Spænski markvörðurinn David De Gea átti stórkostlegan leik þegar Manchester United vann 3-0 sigur á Liverpool á Old Trafford í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×