Enski boltinn

Bolton News: Eiður Smári verður bjargvættur liðsins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen sneri aftur í lið Bolton á laugardaginn eftir fjórtán ára fjarveru þegar það gerði markalaust jafntefli við Ipswich á Macron-vellinum.

Eiður Smári kom inn á þegar hálftími var eftir og þótti standa sig vel. Hann dansaði með boltann inn á miðjunni og reyndi að búa eitthvað til fyrir samherja sína.

Það var kraftur í Eiði sem fékk gult spjald fyrir kjaftbrúk og þá var hann nálægt því að koma Suður-Kóreumanninum Lee Chung-Young í dauðafæri eftir rúmar 70 mínútur.

„Hinn 36 ára gamli Eiður Guðjohnsen, sem menn tóku séns á fyrir nokkrum vikum, lítur nú eins og bjargvættur liðsins,“ skrifar Gordon Sharrock, blaðamaður Bolton News, í umfjöllun sinni um leikinn.

„Spilamennska Eiðs var það besta sem sást í annars daufum leik. Bara það að sjá hann hita upp í appelsínugulu vesti fékk stuðningsmennina til að standa upp og klappa. Þegar Lennon setti Eið svo inn á var hverri snertingu hans fagnað í stúkunni.“

Sharrock viðurkennir að aldurinn sé farinn að segja til sín hjá Eiði Smára, og hann mun ekki hlaupa út um allan völl eins og hann gerði forðum daga undir stjórn Colins Todds og Sams Alalryce.

„En að horfa á þennan fyrrverandi leikmann Barcelona dansa í kringum tæklingar á miðjunni eins og ekkert væri bjargaði deginum fyrir mig og marga aðra,“ skrifar hann um Eið Smára Guðjohnsen.

Marc Iles, aðal fótboltapenni Bolton News, er sammála Sharrock og gefur Eiði Smára 7,60 í einkunn fyrir sína frammistöðu. „Fékk fólk til að risa úr sætum,“ segir hann í umsögn um Eið.

Markvörðurinn Andy Lonergan fær hæstu einkunn eða átta, en hann átti algjörlega frábæran leik.


Tengdar fréttir

Eiður sneri aftur | Myndband

Eiður Smári Guðjohnsen lék sinn fyrsta leik fyrir Bolton Wanderers í 14 ár þegar hann kom inn á sem varamaður í markalausu jafntefli gegn Ipswich á Macron Stadium.

Lennon var ánægður með Eið

Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton Wanderers, var ánægður með innkomu Eiðs Smára Guðjohnsen í markalausu jafntefli gegn Ipswich Town í dag.

Eiður byrjar á bekknum | Myndband

Eiður Smári Guðjohnsen byrjar á varamannabekknum þegar Bolton Wanderers tekur á móti Ipswich Town í ensku B-deildinni klukkan 15:00 á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×