Erlent

Stórslys í Danmörku: "Það hafa verið hjálparenglar sem vöktu yfir henni“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
mynd/dr/Brian Rasmussen
Tuttugu og þriggja ára danskur vörubílstjóri hefur verið sakaður um manndráp af gáleysi eftir að hafa valdið stórslysi á hraðbraut E45 í Horsens í Danmörku í gær. Þrír létust og sautján slösuðust. Íslensk kona er á meðal hinna slösuðu.

Tildrög slyssins eru enn að einhverju leyti óljós, og er rannsókn málsins nú í höndum lögreglu. Lögreglan segir þó allt benda til þess að vörubílstjórinn sé sá sem olli slysinu. Á vef danska ríkisútvarpsins segir að maðurinn hafi reynt að komast framhjá umferð, sem var í hægagangi vegna annars umferðaróhapps sem átti sér þar stað skömmu áður og þannig orðið valdur að dauða tveggja stúlkna, 19 og 21 árs og 54 ára karlmanns.

Íslenska konan sem slasaðist heitir Inga Rún Harðardóttir og er listakona sem hefur verið búsett í Danmörku í fjölmörg ár. Móðir hennar, Birna Ágústsdóttir er hjá henni á sjúkrahúsinu í Árósum en hún segir í samtali við RÚV að Inga Rún hafi verið sett í korsett og verði í því næstu þrjá mánuðina. Hún sé með meðvitund og hafi getað lýst slysinu.

„Maður getur ekki skilið hvernig lifandi manneskja komst út úr þessum bíl. Það hafa verið hjálparenglar sem vöktu yfir henni, því hún var samanklemmd í bílnum. Hún slapp ótrúlega vel, við erum bara orðlaus,“ sagði Birna í samtali við RÚV. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×