Erlent

Norska lögreglan fær ekki að vopnbúast til frambúðar

Vopnaður lögregluþjónn fyrir utan aðallestarstöðina í Osló.
Vopnaður lögregluþjónn fyrir utan aðallestarstöðina í Osló. Nordicphotos/AFP
Meirihluti þingmanna í norska Stórþinginu er andsnúinn nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem gerir ráð fyrir því að almenna lögreglan í landinu geti búist skotvopnum, telji viðkomandi lögreglustjórar það nauðsynlegt.

Ríkisstjórn Ernu Solberg er minnihlutastjórn og nú virðist ljóst að tillagan njóti aðeins stuðnings stjórnarflokkanna en ekki þeirra flokka sem styðja hana. Andstæðingar tillögunnar segja að málið hafi ekki verið rætt nægilega mikið og rök skorti fyrir þessari grundvallarbreytingu en hingað til hefur norska lögreglan verið vopnlaus, nema við sérstakar aðstæður.

Það sem gerir málið heldur snúnara er að lögreglan hefur þegar tekið að bera skotvopn, en það var gert með tímabundinni reglugerð sem sett var á dögunum í ljósi mikillar hryðjuverkahættu sem norska öryggislögreglan segir að steðji að landinu. Festa átti reglurnar í sessi með frumvarpinu nú en andstaðan virðist ætla að koma í veg fyrir það.

Þingmenn hafa einnig gagnrýnt þá staðreynd að þeir hafi ekki fengið nægilega miklar upplýsingar um í hverju hættan liggi, þær séu sveipaðar leyndarhjúpi og því erfitt fyrir þingmenn að taka afstöðu til málsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×