Erlent

Þjóðverjar lausir við tölvupósta utan vinnutíma

Atli Ísleifsson skrifar
Bílaframleiðandinn Volkswagen og fleiri fyrirtæki hafa nú þegar sjálf komið til móts áhyggjur þýska ráðherrans.
Bílaframleiðandinn Volkswagen og fleiri fyrirtæki hafa nú þegar sjálf komið til móts áhyggjur þýska ráðherrans. Vísir/Getty
Þjóðverjar á vinnumarkaði verða mögulega lagalega varðir gegn því að þurfa að skoða eða svara vinnutengdum símtölum eða tölvupóstum utan vinnutíma.

Andrea Nahles, atvinnumálaráðherra Þýskalands, íhugar nú að koma á reglugerð þessa efnis til að kljást við aukið stress og kvíða meðal þýsks almennings.

Nahles segir í samtali við Rheinische Post að það sé „óumdeilt að það sé tenging milli þess að vera stöðugt tiltækur og sálrænna kvilla“. Embættismenn safna nú upplýsinga en vonir standa til að hugmyndin verði gerð að lögum á næsta ári.

Bílaframleiðandinn Volkswagen og fleiri fyrirtæki hafa nú þegar sjálf komið til móts áhyggjur ráðherrans, meðal annars með því að hátta hlutum þannig að vinnutengdir tölvupóstar berist ekki um helgar eða virka daga milli klukkan 18:15 á kvöldin og 7 á morgnana. 

Í frétt NBC segir að skoðanakönnun tryggingafélagsins DAK bendi til þess að 52 prósent aðspurðra styðji hugmyndir um opinberar aðgerðir sem vinna að því að draga úr stressi fólks á vinnumarkaði. Sjötíu prósent sögðu einnig að þrýstingur vegna vinnutengdra tölvupósta og símtala utan vinnutíma hafi aukist mikið að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×