Erlent

Suður-afrískur dómstóll vísar máli Dewani frá

Atli Ísleifsson skrifar
Shrien Dewani var framseldur frá Bretlandi til Suður-Afríku fyrr á þessu ári.
Shrien Dewani var framseldur frá Bretlandi til Suður-Afríku fyrr á þessu ári. Vísir/AFP
Dómari í Suður-Afríku hefur vísað frá máli gegn breska viðskiptamanninum Shrien Dewani, en Dewani var sakaður um að skipuleggja morð á eiginkonu sinni Anni árið 2010.

Dómarinn Jeanette Traverso sagði sönnunargögn saksóknara vera fjarri því að vera nægilega sterk til að dómstóll myndi nokkurn tímann sakfella manninn. Þannig hafi málflutningur helsta vitnis saksóknara verið mjög mótsagnakenndur.

Í frétt BBC kemur fram að fjölskylda Anni telji að dómskerfi Suður-Afríku hafi brugðist þeim.

Um leið og dómari hafði greint frá úrskurði sínum sneri hinn 34 ára Dewani aftur til klefa síns og yfirgaf fangelsið skömmu síðar í fylgd fjölskyldu sinnar.

Leigubíl Dewani og Anni var rænt í úthverfi Höfðaborgar þann 13. nóvember 2010. Í frétt Guardian segir að tveir menn hafi rænt parið, ýtt Dewani og bílstjóranum út úr bílnum og svo skotið Anni í hálsinn. Hún fannst látin í yfirgefnum bílnum daginn eftir.

Lögregla taldi Shrien Dewani til að byrja með vera fórnarlamb í málinu en snerist fljótt hugur. Þrír menn játuðu fljótlega aðild að málinu og sögðu Dewani hafa skipulagt verknaðinn og greitt þeim fyrir framkvæmdina.

Málið hefur vakið mikla athygli í Suður-Afríku og höfðu yfirvöld unnið að því hörðum höndum að fá Dewani framseldan til landsins. Dewani var loks framseldur frá Bretlandi til Suður-Afríku á þessu ári, en úrskurðurinn er álitinn vera mikið áfall fyrir saksóknaraembættið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×