Erlent

Tókst ekki að láta slönguna gleypa sig

Atli Ísleifsson skrifar
Þátturinn olli áhorfendum talsverðum vonbrigðum.
Þátturinn olli áhorfendum talsverðum vonbrigðum.
Náttúrufræðingnum Paul Rosolie tókst ekki að láta risaslöngu gleypa sig en þátturinn Eaten Alive var sýndur á sjónvarpsstöðinni Discovery í gærkvöldi.

Þættinum var beðið með mikilli eftirvæntingu en óhætt er að segja að hann hafi valdið áhorfendum miklum vonbrigðum.

Risaslangan virtist ekki hafa nokkurn áhuga á að éta Rosolie líkt og hann hafði vonast til heldur reyndi þess í stað að vefja sig utan um hann. Rosolie neyddist að lokum til að kalla til aðstoðar þegar slangan gerði sig líklega til að handleggsbrjóta Rosolie.

Í myndinni var sagt frá því hvernig Rosolie og samstarfsfélagar hans leituðu í regnskólum Perú að risaslöngu sem þeir að lokum fundu. Um var að ræða sex metra langt kvendýr og klæddist Rosolie sérstökum búningi og reyndi að fá slönguna til að éta sig.

„Kraftur hennar var allur á handleggnum mínum. Ég fann hvernig blóðið fór úr handleggnum mínum á meðan ég fann hvernig handleggurinn tók að beygjast. Þegar þetta var komið svo langt að ég var farinn að finna að hann væri á leið af neyddist ég til að hætta við allt saman,“ sagði Rosolie.

Margir vilja meina að hugmyndin hafi frá upphafi verið galin enda vilja risaslöngur jafnan tryggja að bráð þeirra sé hætt að anda áður en þeir gleypa hana.

Risaslöngunni var sleppt eftir að upptökuliðið varð að hætta við tilraunina.

Dýraverndunarsinnar hafa margir gagnrýnt Rosolie fyrir athæfið og hafa hótað að sniðganga Discovery. Sjálfur segist Rosolie hafa miklar áhyggjur af framtíð regnskóganna og að hann hafi ráðist í gerð myndarinnar til að koma boðskapnum á framfæri til sem flestra.

Hér að neðan má sjá kynningarmyndband fyrir þáttinn sem sýndur var í gærkvöldi.


Tengdar fréttir

Étinn lifandi af risaslöngu

Paul Rosolie, náttúrufræðingur, verður étinn lifandi af risaslöngu fyrir þáttinn Eaten Alive á Discovery sjónvarpsstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×