Innlent

Gísli Freyr grét í dómsal

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gísli Freyr og Rakel í dómsal í dag.
Gísli Freyr og Rakel í dómsal í dag. vísir/gva
Mál Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Ekki var annað að sjá en að málið tæki verulega á hann, en viðstaddir tóku eftir því að á tímapunkti runnu tár niður kinnar hans.

Eiginkona Gísla, Rakel Lúðvíksdóttir, sat meðferðina og þerraði tárin á hvarmi hans að meðferð lokinni. Gekk hún svo með honum úr dómsal. Verjandi hans, Ólafur Garðarsson, hafði jafnframt orð á því að málið hefði lagst þungt á hann. „Ég hef horft upp á ákærða sökkva dýpra og dýpra eftir því sem styttist í aðalmeðferðina,“ sagði Ólafur.

Gísli Freyr játaði brot sitt fyrir verjanda sínum á mánudag og fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í gær. „Jafnvel þó ég verði sýknaður þá get ég ekki hugsað mér að lifa við þetta,“ hafði Ólafur eftir umbjóðanda sínum.

Eins og fram hefur komið á Vísi styður Rakel þétt við bakið á eiginmanni sínum og lýsti yfir fullum stuðningi við hann á Facebook í dag.

„Þessi dagur markar nýtt upphaf. Upphaf sem ég veit ekki hvað ber í skauti sér. Ég óttast ekki framtíðina, ég býð hana velkomna með öllu sem hún hefur upp á að bjóða. Gleði, sigra, sorg og áskoranir,“ sagði Rakel á Facebook seint í gær.

„Í dag er ég stolt eiginkona Gísla sem gerðist maður að meiri að viðurkenna mistök sín. Það þarf kjark og þor til þess.“

Gísli Freyr var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann sagði í samtali við fréttastofu að hann myndu una dóminum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×