Enski boltinn

Rodgers: Liverpool saknar Sturridge

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Sturridge.
Daniel Sturridge. Vísir/Getty
Daniel Sturridge hefur ekki spilað með Liverpool-liðinu síðan 31. ágúst og ennfremur ekki skorað fyrir Liverpool síðan í fyrstu umferð tímabilsins. Knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers viðurkennir fúslega að liðið sakni síns aðalframherja.

Daniel Sturridge meiddist fyrst á landsliðsæfingu í byrjun september en þegar hann var orðinn góður af þeim meiðslum þá meiddist hann á kálfa á Liverpool-æfingu.

Síðan að Sturridge meiddist hefur Liverpool aðeins náð að skora sjö mörk í sex leikjum í úrvalsdeildinni og Mario Balotelli hefur aðeins náð að skora eitt mark í 11 leikjum með Liverpool og það mark kom í Meistaradeildarleik á móti  Ludogorets.

Liverpool náði aðeins markalausu jafntefli á heimavelli á móti Hull City um helgina sem þýðir að Liverpool-liðið er aðeins í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, níu stigum á eftir toppliði Chelsea.

„Þegar þú ert í vandræðum þá veistu að þú ert með leikmenn sem getur búið til eitthvað upp úr engu. Það er hættulegt vopn og Sturridge er einn af slíkum leikmönnum okkar," sagði Brendan Rodgers í viðtali á heimasíðu Liverpool. Sturridge skoraði 24 mörk á síðustu leiktíð og Rodgers bíður eftir endurkomu hans eins og allir stuðningsmenn Liverpool.

„Þegar Daniel kemur aftur inn í liðið þá kemur hann með sjálfstraust með sér. Við verðum bara að reyna að spila án hans og við erum að gera það. Við erum enn í efri hluta deildarinnar," sagði Rodgers sem er fyrir löngu farinn að draga úr væntingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×