Enski boltinn

QPR af botninum eftir sigur á lánlausu liði Aston Villa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
QPR er komið úr botnsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-0 sigur á Aston Villa á heimavelli sínum í kvöld. Charlie Austin skoraði bæði mörk Lundúnarliðsins.

Þetta var fimmta tap Aston Villa í röð en liðið hefur hrunið eftir að hafa náð í tíu stig af tólf mögulegum í fyrstu fjórum umferðum tímabilsins. Aston Villa hefur þar að auki ekki skorað síðan að Gabriel Agbonlahor tryggði liðinu 1-0 sigur á Liverpool þann 13. september.

Bobby Zamora lagði upp fyrra mark QPR fyrir Austin á sautjándu mínútu og Eduardo Vargas það síðara um miðjan síðari hálfleikinn.

QPR er með sjö stig eftir sigurinn og í nítjánda sæti. Burnley er nú á botninum með fjögur stig en Aston Villa er í fimmtánda sæti með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×