Enski boltinn

Chelsea áfram á sjálfsmarki | WBA úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Drogba skorar mark sitt í kvöld.
Drogba skorar mark sitt í kvöld. Vísir/Getty
Chelsea, topplið ensku úrvalsdeildarinnar, lenti í basli gegn D-deildarliðinu Shrewsbury í 16-liða úrslitum ensku deildabikarkeppninnar í kvöld. Chelsea hafði þó betur, 2-1.

Didier Drogba kom meistaraefnunum yfir með marki snemma í síðari hálfleik en Andy Mangan, varamaður Shrewsbury, jafnaði metinn fyrir heimamenn þegar þrettán mínútur voru eftir af leiknum.

En gleði heimamanna var skammvinn því varnarmaðurinn Jermaine Grandison varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark er hann stýrði fyrirgjöf Willian í eigið mark aðeins fjórum mínútum síðar.

Úrvalsdeildarlið West Brom féll svo úr leik er liðið mætti Bournemouth á útivelli og tapaði, 2-1. Eunan O'Kane kom heimamönnum yfir en Tommy Elphick skoraði sjálfsmark á 85. mínútu og jafnaði metin fyrir West Brom.

Sigurmarkið kom þó aðeins mínútu síðar en Callum Wilson tryggði B-deildarliði Bournemouth sæti í fjórðungsúrslitunum.

Sheffield United hafði svo betur gegn MK Dons, 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×