Fótbolti

Jóhannes Karl vill spila í efstu deild

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bræðurnir Bjarni og Jóhannes Karl í leik með Fram í sumar.
Bræðurnir Bjarni og Jóhannes Karl í leik með Fram í sumar. vísir/daníel
Ólíklegt er að Jóhannes Karl Guðjónsson, leikmaður Fram sem féll úr Pepsi-deildinni í sumar, verði áfram í Safamýrinni, en þessi fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður vill spila áfram í efstu deild.

„Hugurinn er þar. Ég vil áfram vera í deild þeirra bestu - það hefur engin breyting verið á því,“ segir Jóhannes Karl í samtali við Vísi í dag, en hann gerði tveggja ára samning við Framara síðasta haust.

„Mér skilst að það sé uppsagnarákvæði af beggja hálfu. Ég hef ekki hitt Framarana þannig ég veit ekki alveg hver staðan er, en þessi mál verða skoðuð fljótlega. Ég vil samt helst vera áfram í efstu deild.“

Jóhannes Karl segist ætla sér út í þjálfun í framtíðinni, en hann hefur verið orðaður við nokkrar þjálfarastöður á undanförnum dögum. Hann ætlar þó ekki út í þjálfun alveg strax.

„Þjálfun er eitthvað sem ég ætla mér að fara út í, hvort sem það verður núna eða seinna. Ég veit samt ekki hvort það verði núna í haust eða seinna. Ég lít fyrst og fremst á sjálfan mig sem leikmann núna og langar að taka eitt ár allavega til viðbótar í efstu deild,“ segir Jóhannes Karl Guðjónsson.


Tengdar fréttir

Feitustu bitarnir á leikmannamarkaðnum

Pepsi-deildinni lauk á laugardaginn og það eru sjö mánuðir í næsta leik. Þangað til gætu margir leikmenn fundið sér nýtt heimili. Fréttablaðið skoðar í dag eftirsóttustu leikmennina á markaðnum.

Framarar vilja að Bjarni haldi áfram

Snorri Már Skúlason, formaður meistaraflokksráðs Fram, segir gagnkvæman vilja þjálfara og stjórnar knattspyrnudeildar að Bjarni Guðjónsson verði áfram þjálfari liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×