Innlent

Ráðinn sem músaveiðari upp á fæði og húsnæði

Kristján Már Unnarsson skrifar

Kötturinn Dýri sem ættleiddur var úr kattaathvarfi í Reykjavík hefur fengið starf sem músaveiðari í fiskeldisstöð vestur á fjörðum. Launin eru frítt fæði og húsnæði.

Við tókum eftir kettinum þegar verið var að sýna okkur seiðaeldisstöð Dýrfisks í Tálknafirði á dögunum. Hann læddist milli eldiskerjanna, stökk meira að segja upp á þau og horfði ofan á fiskana.

Dýri var áður vistaður í kattaathvarfi í Reykjavík en er nú músaveiðari á Vestfjörðum. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

„Þetta er Dýri, einn af starfsmönnunum hérna,“ sagði Sigurvin Hreiðarsson, stöðvarstjóri Dýrfisks, þegar hann kynnti fréttamönnum Stöðvar 2 fyrir þessum fjórfætta starfskrafti. 

„Hann kemur að sunnan, úr athvarfi, Kattholti, og er að aðstoða okkur við það sem við þurfum að láta hann gera.“

Dýri í eftirlitsferð milli eldiskerjanna. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Dýri býr í fiskeldisstöðinni og þar neðst í hillustæðu á hann sitt eigið ból. Þaðan fer hann reglulega eftirlitsferðir um húsakynnin og grandskoðar hvert skúmaskot. „Við notum hann í eftirlit á kvöldin og á nóttinni og hann hjálpar okkur að bægja frá óæskilegu, músum og öðru þvíumlíku,“ sagði Sigurvin. 

En skyldu fiskarnir í kerjunum vera freistandi matur fyrir kisa? Nei, hann stenst þá freistingu en fylgist þó vel með þegar fiskunum er gefið.

Dýri fylgist með þegar fiskunum er gefið. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Og launin fyrir starfið? „Hann vinnur fyrir fæði og húsnæði,“ svaraði Sigurvin. 

„Starfsmaður mánaðarins,“ sagði Telma Tómasson fréttaþulur.

Vísir/Egill Aðalsteinsson

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.