Innlent

Ráðinn sem músaveiðari upp á fæði og húsnæði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kötturinn Dýri sem ættleiddur var úr kattaathvarfi í Reykjavík hefur fengið starf sem músaveiðari í fiskeldisstöð vestur á fjörðum. Launin eru frítt fæði og húsnæði.

Við tókum eftir kettinum þegar verið var að sýna okkur seiðaeldisstöð Dýrfisks í Tálknafirði á dögunum. Hann læddist milli eldiskerjanna, stökk meira að segja upp á þau og horfði ofan á fiskana.

Dýri var áður vistaður í kattaathvarfi í Reykjavík en er nú músaveiðari á Vestfjörðum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Þetta er Dýri, einn af starfsmönnunum hérna,“ sagði Sigurvin Hreiðarsson, stöðvarstjóri Dýrfisks, þegar hann kynnti fréttamönnum Stöðvar 2 fyrir þessum fjórfætta starfskrafti. 

„Hann kemur að sunnan, úr athvarfi, Kattholti, og er að aðstoða okkur við það sem við þurfum að láta hann gera.“

Dýri í eftirlitsferð milli eldiskerjanna.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Dýri býr í fiskeldisstöðinni og þar neðst í hillustæðu á hann sitt eigið ból. Þaðan fer hann reglulega eftirlitsferðir um húsakynnin og grandskoðar hvert skúmaskot. „Við notum hann í eftirlit á kvöldin og á nóttinni og hann hjálpar okkur að bægja frá óæskilegu, músum og öðru þvíumlíku,“ sagði Sigurvin. 

En skyldu fiskarnir í kerjunum vera freistandi matur fyrir kisa? Nei, hann stenst þá freistingu en fylgist þó vel með þegar fiskunum er gefið.

Dýri fylgist með þegar fiskunum er gefið.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Og launin fyrir starfið? „Hann vinnur fyrir fæði og húsnæði,“ svaraði Sigurvin. 

„Starfsmaður mánaðarins,“ sagði Telma Tómasson fréttaþulur.

Vísir/Egill Aðalsteinsson

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.