Stöð 2 hefur síðustu daga fjallað um fjárfestingar Arnarlax, mikinn vöxt Fjarðarlax en þriðja fyrirtækið, Dýrfiskur, stendur einnig fyrir verulegri uppbyggingu á sunnanverðum Vestfjörðum.
Í botni Tálknafjarðar er hafin smíði seiðaeldisstöðvar sem að grunnfleti verður samtals fimmtán þúsund fermetrar í þremur álmum. Sigurvin Hreiðarsson, stöðvarstjóri Dýrfisks í Tálknafirði, var spurður hvort Tálknafjörður hefði séð annað eins:

Til samanburðar má geta þess að grunnflötur nýju bygginganna í Tálknafirði verður tvöfalt meiri en fermetrafjöldinn í sjúkrahúsinu á Ísafirði.

„Þessi stöð á að verða sú fullkomnasta í heimi þegar upp verður staðið,” segir Sigurvin. Hann segir að hvert ker í stöðinni verði sjálfstæð eining og með sjálfstæðan hreinsibúnað sem þýði að 85 prósent af vatninu verði endurnýtt.
Dýrfiskur elur upp seiði regnbogasilungs í gömlu stöðinni í Norðurbotni en átta mánaða gamall er silungurinn fluttur í sjókvíar í Dýrafirði og Önundarfirði og síðan unninn á Flateyri. Starfsmenn fyrirtækisins eru orðnir yfir fimmtíu talsins og búist við að þeim fjölgi í yfir eitthundrað á næstu árum.
„Íbúðaverð er á leiðinni upp hérna, - út af þessu eldi sem er í gangi á öllum stöðunum hérna. Það er að bætast við fólk. Það er allt jákvætt við þetta,” segir Sigurvin. Sjálfur er hann borinn og barnfæddur Tálknfirðingur.
-Upplifir þú þetta sem ævintýri?
„Þetta er stórt ævintýri. Það er ósköp einfalt. Það er ekkert annað.”