Innlent

Fimm ár fyrir manndrápstilraun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 17. september.
Frá þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 17. september. Vísir/GVA
Daníel Andri Kristjánsson, 23 ára karlmaður, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Hann er sakaður um að hafa meðal annars stungið unnustu sína þremur stungum, í háls, kvið og hnakka á heimili þeirra í Grafarholti í júlí síðastliðnum. Þá þarf Daníel Andri að greiða 2,4 milljónir króna í skaðabætur. Unnustan fyrrverandi hafði farið fram á rúmlega átta milljónir króna í bætur auk sakakostnaðar sem féll á Daníel Andra.

Daníel Andri neitaði sök við þingfestingu málsins í september síðastliðnum. Bar hann fyrir sig minnisleysi en sagði það aldrei hafa verið ætlunarverk sitt að verða henni að bana. Kannaðist hann við að hafa veitt henni einstaka áverka en ekki að hafa stungið hana með hníf.

Hann er sakaður um að hafa veist að unnustu sinni þannig að hún féll við og sparkað í andlit hennar þar sem hún lá á gólfinu, slegið hana í andlit og inni á baðherbergi íbúðarinnar stungið hana þremur stungum með hníf. Hlaut hún af atlögunni umtalsverða áverka en efri vör hennar rifnaði í sundur, tönn hennar brotnaði og hlaut hún fleyðursár á öðru auga auk þess að þurfa að undirgangast aðgerð vegna hnífstunganna. Konan sagði við aðalmeðferð málsins í byrjun október að maðurinn hefði áður beitt sig ofbeldi, bæði undir áhrifum áfengis og allsgáður. Þó aldrei þessu líkt og að árásin hafi komið sér í opna skjöldu. Hún hafi óttast verulega um líf sitt og að hún hafi barist við mikið þunglyndi frá því að árásin átti sér stað.

Ákæruvaldið taldi að fullu sannað að um tilraun til manndráps hafi verið að ræða og fór fram á fimm ára fangelsisdóm yfir manninum. Verjandi hans fór fram á lægstu mögulegu refsingu.

Daníel Andra er því gert að sæta fangelsi í fimm ár að frádregnu gæsluvarðhaldi sem hann hefur setið í rúma fjóra mánuði. 


Tengdar fréttir

Karlmaður ákærður fyrir tilraun til manndráps

Tuttugu og þriggja ára karlmaður hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps. Manninum er gefið að sök að hafa ráðist á 21 árs gamla unnustu sína á heimili þeirra í Grafarholti í júlí síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×